-Auglýsing-

Veruleikinn

iStock 000001047294XSmallÞað er alltaf jafn merkilegt þegar maður hittir hann fyrir. Stundum kemur hann manni hreinlega algjörlega að óvörum og minnir mann á og það stundum illþyrmilega. Í sjálfu sér vill hann manni vel en hann er stundum þannig að maður hugsar jafnvel með sér að sumir hlutir væru kannski betur látnir ósagðir eða hreinlega algjörlega hundsaðir. Hann er í raun eins og góður vinur, vinur sem segir manni alltaf satt.

Ég hitti hann á götu um daginn og við tókum tal saman. Hann spurði mig hvernig ég hefði það og ég svaraði með dálítið feimnislegu brosi að ég hefði það bara nokkuð gott og já ég bar mig satt best að segja nokkuð mannalega.
Ég lýsti því t.d. hvað ég hefði haft gott að því að búa í Danmörku í þrjú ár og kynnast ólíku umhverfi, víkka út sjóndeildarhringinn. Ég sagði honum líka hvað það hefði verið gott að koma heim og hvað lífið er mikið einfaldara þegar maður þekkir allt og getur notað sitt eigið móðurmál. Ég bætti því við að veðurguðirnir hefðu farið um mig mjúkum höndum upp á síðkastið svo ég gæti varla kvartað.

Við gengum eftir götunni svolítinn spotta og þurftum svo að ganga upp nokkrar tröppur sem urðu á vegi okkar, hann leit ákveðinn á mig og segir við mig, Björn þú mæðist við að ganga á jafnsléttu og verður sprengmóður við að ganga upp nokkrar tröppur. Ég átti aðeins erfitt með mál vegna mæði þannig að ég kinkaði kolli.

Hann varð alvarlegur og spurði hvort að það væri ekki rétt munað hjá honum að vindurinn og kuldinn í janúar hefði haldið mér innanhúss að mestu leiti. Ég gat ekki neitað því en ég bætti því líka við að ég hefði haft nóg fyrir stafni þannig að það hefði í rauninni ekki komið að sök auk þess sem ég hefði komið ýmsu í verk sem setið hafði á hakanum. Auk þess benti ég honum stoltur á að það hefðu líka verið tíu ár síðan ég hætti að reykja þann níunda febrúar og var nokkuð ánægður með mig.

Hann leit snögglega á mig og sagði gott hjá þér en eru þá ekki líka 10 ár frá hjartaáfalli sagði hann, ég jánkaði því. Og þú tekur ennþá lyfin þín er það ekki? Jú jú svaraði ég og varð hugsað til lyfjaskápsins míns. Og engir sjúkdómar eða óáran bæst við hjá þér? Ég leit niður og sagði sem satt var að reyndar væri það þannig að það bættist eitthvað við nánast á hverju einasta ári þannig að það væri alltaf eitthvað að fást við.

Hvað tekur þú mikið af lyfjum? Spurði hann. Ég var nú orðin dálítið niðurlútur og sagði að í dag væri ég að taka 24 til 26 töflur á dag og hefði verið svipað frá upphafi. Já einmitt sagði hann. Veistu hvað það eru margar töflur á ári spurði hann snögglega. Nei ekki hafði ég það nú á takteinunum. Ef meðaltalið er 24 töflur á dag eru það 8.760 töflur á ári eða 87.600 töflur á tíu árum sagði hann þungbrýnn.

- Auglýsing-

Mér hálfbrá því þetta hafði ég ekki hugsað svo mikið út í síðustu árin. Ég hef ekki heldur verið upptekin af því að velta því fyrir mér hvort eða hversu móður ég er stundum né heldur hugsað mikið um sjúkdómana sem hafa verið að bætast á mig í rólegheitunum, svona læðast aftan að mér.

Ég var satt best að segja orðin hálf þurr í kverkunum en um leið aumur og vöknaði um augun. Það er erfitt þegar veruleikin hittir mann fyrir og minnir mann á.

Reykjavík 22.02.2012

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-