-Auglýsing-

Karlmennska, húmor og hjartabilun

Daníel Örn Sigurðsson
Daníel Örn Sigurðsson

Vinur minn og töframaðurinn sem var á stofu með mér hérna á hjartadeildinni er farinn heim á góðum batavegi. Meðan hann var að bíða eftir útskriftinni skellti hann í einlægan pistil okkur til fróðleiks og skemmtunar, eins og honum einum er lagið.

Það er alltaf forvitnilegt þegar lífið tekur óvænta stefnu. Það gerði það svo sannarlega í mínu tilviki þar sem stefnan fór í átt sem mig hefði aldrei órað fyrir.

Líkt og flestir upplifa einhverntíman á lífsleiðinni þá upplifði ég ódauðleika á líkama og sál. Ég er skemmtikraftur og mikill húmoristi, ég framkvæmi töfrabrögð af guðs náð og elska að skemmta fólki og veita mannkyninu upplifun á heimsmælikvarða.
Seinni atvinna mín felst í að aka fólki milli staða með gult taxamerki á toppnum, ég hef oft álitið mig sem töfrataxa og ek um götur borgarinnar með ódauðleikann í farteskinu.

Eftir mörg ár í miklu álagi sem var einungis almennt líf fyrir mér, ég lifði í hamingju og gleði sem aldrei dvínaði, þá var kippt í spotta – ég fékk gula spjaldið. Maðurinn sem var ódauðlegur var það ekki lengur. Hvað hafði gerst? Ég veitti slappleika og vægri flensu enga athygli en kæfði það frekar með paratabs og ibufen því það var enginn tími fyrir veikindi.

Fáfræðin og karlmennskan varð mér að falli, ég lagðist inn á spítala með lungnabólgu og hjartabilun.
Ha? Húmoristi með hjartabilun, þetta hlítur að vera draumur.

En draumurinn varð að bláköldum veruleika. Í stað þess að eyða tíma í að hlúa að sjálfum mér og minni heilsu þá greiddi ég þrefalt meiri tíma og stofnaði lífi mínu í hættu, lífi sem ég lifði fyrir, líf sem er mér svo dýrmætt að allir heimsins peningar dygði ekki fyrir því. Mér var sagt að ég væri að deyja úr karlmennsku, það er ekki fallegur dauðdagi.

- Auglýsing-

Allt í einu sat ég fram í fyrir að vera þessi venjulegi maður sem klæddist hvítum fötum og kallaði sig sjúkling. Húmoristinn, töframaðurinn og hið blómlega líf var ekki lengur á dagskránni, heldur einungis hjartamonitor, línurit, mettunarmælir og súrefnisgjöf.

Það var ekki búið að gefa út dagskrá næstu viku og hvað þá vikurnar þar á eftir. Það sem var áður björt framtíð með vinum og fjölskyldu var orðin ráðgáta, og ég þurti að kyngja því – erfiður biti að kyngja.

Eftir tvær vikur í bataferli þá eru myndirnar að skýrast, ég hef lært að nýta mér þá þolinmæði sem ég átti einhver staðar og hef þurft að fá að vera sjúklingur í þennan tíma á meðan heimurinn sér um sig.

Í dag er góður dagur því að öllum líkindum fer ég heim eftir ágætan bata og fer heim með þá hugsun að ég á bara eitt líf og ef það fer þá er ekkert aftur snúið.

Ég tel mig lukkulegan að þessi tuska sem ég fékk í andlitið var gula spjaldið en ekki það rauða. Ég held að þetta hafi ennfremur verið góð skilaboð um að það er enginn ódauðlegur – alveg sama hversu fyndinn hann er.

Kæri lesandi, heilsan er það mikilvægasta sem þú átt og hún á skilið smá athygli.

Daníel Örn Sigurðsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-