-Auglýsing-

Geðveikt æðisleg einkavæðing

Björg Eva Elendsdóttir skrifar í 24 stundir: Breið samstaða er í tveimur stærstu stjórnmálaflokkunum um verulegar breytingar á heilbrigðiskerfi landsmanna. Þetta er víðtækari endurskipulagning en gerð hefur verið í áratugi. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking liggja undir gagnrýni fyrir að tala út og suður í sumum stórum pólitískum grundvallarmálum. Bent er á ólíka afstöðu flokkanna til evrunnar og til ESB. Og ekki síður á ágreining í auðlinda- og orkumálum.
Í heilbrigðismálum er annað uppi á teningnum. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra nýtur fulls stuðnings ríkisstjórnarflokkanna í viðleitni sinni við að hagræða og breyta heilbrigðiskerfinu með útvistun verkefna og auknum einkarekstri.

Stjórnarandstaðan hrópar í eyðimörk

Stjórnarandstæðingar í Framsóknarflokki og VG hafa hrópað varnaðarorð um einkavæðingu úr ræðustól Alþingis, án mikilla undirtekta. Þeir segja þögn Samfylkingarinnar æpandi. Össur Skarphéðinsson, ráðherra Samfylkingarinnar, æpir ekki með þögninni um heilbrigðismálin. Þvert á móti bloggar hann fullum hálsi um stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og segir hana vera jafnaðarstefnu í framkvæmd, mótaða innan Samfylkingarinnar. Orðrétt segir Össur: „Ég fæ ekki betur séð en að þessi stefna Samfylkingarinnar sem ég mótaði öðrum fremur ásamt Einari Karli Haraldssyni og fékk samþykkta á landsfundi 2005 sé orðin að stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún stefnir vissulega aðútboðum á rekstri deilda, og stórkaupum á tilteknum aðgerðaflokkum. Það breytir engu um verðstefnuna. Hún verður sú sama og áður.“ Og áfram segir Össur: „Ég er fylgjandi einkarekstri í heilbrigðismálum, en er hinsvegar á móti einkavæðingu, sem fæli í sér heimild til að setja upp einkaspítala í hagnaðarskyni, þar sem borgararnir þyrftu að greiða raunkostnað – sem í reynd myndi skapa stéttskipta heilbrigðisgæslu.“

Jón gamli á Vesturgötunni jafn Jóni Ásgeiri

Össur vill að Jón gamli í kjallaranum á Vesturgötu, sem lifir á ellistyrk, fái sömu þjónustu og Jón Ásgeir og Björgólfur Thor í íslensku heilbrigðiskerfi og að því segir hann að verið sé að vinna. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, segirað Össur sé á harða hlaupum á eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins og það eina sem vanti sé að hann fari að tala um beinharða einkavæðingu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðað á síðasta landsfundi sínum, í heilbrigðis-, orku- og menntamálum. „Þeim finnst geðveikt æðislegt að einkavæða heilbrigðiskerfið, eins og fram kom á landsfundinum í fyrra.“ Siv veltir fyrir sér hvort verið sé rífa niður það semFramsókn hafi byggt upp á langri tíð í heilbrigðisráðuneytinu. „Hræddust er ég um grunnstoðirnar, Landspítalann og heilsugæsluna.“ Heilbrigðisráðherrar Framsóknar voru alla tíð gagnrýndir, ýmist fyrir kyrrstöðu eða að fylgja stefnu Sjálfstæðisflokksins. Nú gagnrýna þeir Samfylkinguna fyrir það sama, en Siv bendir á að formaður Sjálfstæðisflokksins hafi treyst á Samfylkinguna eina til að vinna með sér að breyttu heilbrigðiskerfi.
Leggur að líku einkarekstur og einkavæðingu
Ögmundur Jónasson, VG, er líklega hvað fastastur fyrir í andstöðu við allar gerðir einkarekstrar og -væðingar. „Fréttir úr heilbrigðiskerfinu eru ógnvekjandi. Ráðherra ryður úr vegi þeim sem hafa félagslegar taugar og brottför forstjóra Landspítalans hlýtur að skoðast í því samhengi. Hlutskipti Samfylkingarinnar er óendanlega vesælt,“ segir Ögmundur. „Einkareksturinn verður Jóni á Vesturgötunni síst til góðs. Þjóðin virðist sofa, en það verður óþægilegt að vakna við heilbrigðiskerfi á markaðstorgi,“ segir Ögmundur. Össur segir stjórnmálamenn sem leggjast í víking gegn jafnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar ekki gera það af umhyggju fyrir skattborgurum eða sjúklingum. Þeir séu að hugsa um úrelt viðhorf eins og stéttarfélagsaðild eða að skora billega punkta í kappræðu dagsins.
beva@24stundir.is

24 stundir 15.03.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-